Kjötiðn er löggild iðngrein, skv. iðnaðarlögum og reglugerð um löggiltar iðngreinar.
Löggildingin þýðir að starf og starfsheiti í greininni eru lögvernduð, sbr. nánari skýringar hér að neðan. Rétt til starfa í greininni hafa meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni, sbr. 8. gr. iðnaðarlaga. Rétt til að kenna sig í starfsheiti við greinina hafa þeir einir er hafa sveinsbréf eða meistarabréf í greininni, sbr. 9. gr. iðnaðarlaga. Meistarabréf veitir meistara leyfi til að reka þá iðngrein, er meistarabréf hans tekur til, sbr. 10. gr. iðnaðarlaga. Iðnaðarlögin er að finna á vefslóðinni: http://www.althingi.is/lagas/nuna/1978042.html Reglugerð um löggiltar iðngreinar er að finna á vefslóðinni: http://www.reglugerd.is/interpro/dkm/WebGuard.nsf/key2/940-1999
Nánari upplýsingar: Skv. 2. gr. iðnaðarlaga má enginn reka iðnað í atvinnuskyni á Íslandi eða í íslenskri landhelgi, nema hann hafi til þess fengið leyfi skv. iðnaðarlögum. Í 3. gr. laganna eru talin upp almenn skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá leyfi til að reka iðnað.
Í 8. gr. laganna kemur fram að iðngreinar, sem reknar eru sem handiðnaður og löggiltar hafa verið í reglugerð ráðherra, skulu ávallt reknar undir forstöðu meistara. Þar kemur einnig fram að Meistari skal bera ábyrgð á að öll vinna sé rétt og vel af hendi leyst. Rétt til iðnaðarstarfa í slíkum iðngreinum hafa meistarar, sveinar og nemendur í iðngreininni.
Í 9. gr. er kveðið á um að rétt til að kenna sig í starfsheiti sínu við löggilta iðngrein hafa þeir einir, er hafa sveinsbréf eða meistarabréf í iðngreininni.
Í 10. gr. kemur m.a. fram að hver maður getur leyst til sín meistarabréf ef hann fullnægir skilyrðum 3. gr., hefur lokið sveinsprófi, unnið síðan undir stjórn meistara í iðngrein sinni eitt ár minnst og jafnframt lokið meistaraprófi í iðninni frá meistaraskóla. Þar kemur einnig fram að meistarabréf veitir meistara leyfi til að reka þá iðngrein, er meistarabréf hans tekur til.
Í 15. gr. eru ákvæði um sektir fyrir brot gegn ákvæðum laganna.