Ágæti félagi
Helgina 12.-14. September síðastliðinn var haldinn vinnufundur stjórnar MFK og fagkeppnisnefndar. Þar var farið yfir þau verkefni sem við sem félag stöndum að og þá sérstaklega hinni góðu fagkeppni. Unnið var með spurningar í fjórum meginflokkum: Styrkleikar, veikleikar, tækifæri og ógnanir. Undir hverjum flokki voru nokkrar undirspurningar sem við skoðuðum sérstaklega.
Þessi vinna gaf okkur betri innsýn inn í verkefni okkar, hvernig við getum bætt okkur og hvað við getum verið stolt af í vinnu okkar hvað varðar fagkeppnina. Fagkeppnin er í dag í góðum farvegi. Við höfum innan okkar raða hæft fólk við dómgæslu og framkvæmd. Þó svo að það sé reyndin þá þurfum við í auknum mæli að skoða leiðir til þess að fyrirtækin sjái sér aukin hag í því að taka þátt í svona keppnum. Með því kynnum við iðngreinina betur, og jafnvel fáum áhugasama einstaklinga til þess að feta í okkar spor og læra iðnina. Við sjáum aukna þörf í að við auglýsum fagið, félagið og keppnina betur. Hugmyndir komu upp um kynningar- og fræðslufulltrúa félagsins. Hans hlutverk væri þríþætt: Að miðla upplýsingum til félaga og fyrirtækja, að hvetja til greinaskrifa um málefni sem tengjast okkur og umsjón með námskeiðum félagsins. Kannski þurfum við í auknum mæli að huga að ferðamönnum í kynningum okkar á mat og matarvenjum.
Í Danmörku er einn vinsælast þáttur í sjónvarpinu raunveruleikaþáttur sem fylgir ungum bónda hvert einasta fótmál. Hvort það er við smíðar á nýrri hlöðu án nýjustu tækni, eða umsýslan hans við bústofninn. Hér á landi er líka mikið horft til fortíðar og hvað okkur varðar þá snýst sú fortíðarhyggja um grunngerð matar. Það að taka slátur og búa til kæfur er að aukast. Getum við sem hluti af kynningu á okkar iðngrein og þá í samráði við fjölmiðla kynnt þessa verkþætti, komið með uppskriftir og fleira fyrir heimilin í landinu.
Margir hafa talað niður það verkefni sem við höfum haft með hendur fyrir Landssamband sauðfjárbænda, það er að grilla lambakjöt. Það er augljóst að þessi verkefni hafa kynnt okkur sem fagmenn mun meira en okkur grunar. Þó svo að félagið okkar sé ekki á allra vörum, eru mun fleiri sem kunna nú á okkur skil. Það getum við þakkað þessu góða samstarfi. Við þurfum í auknum mæli að finna leiðir til kynninga. Í því sambandi hefur verið rætt að halda aukakeppni tengda fagkeppninni þar sem lokadómar verða í höndum neytenda. Sú hugmynd verður kynnt félagsmönnum á næstu vikum og mánuðum. Það er jafnan talið sterkt að þekkja sína veikleika. Það er ekki nóg að þekkja veikleikana við þurfum að vera betri í því að greina þá og finna leiðir og kjark til þess að breyta veikleikum í styrkleika. Á næstu mánuðum þurfum að mæta hver öðrum í umræðunni, í spurningunum: Hver er framtíð kjötiðnaðar á Íslandi? Á ég/ átt þú þar hlut í máli? Getur framlag mitt/þitt /okkar styrkt þessa framtíð.
Kæri félagi,
Það hefur oft verið sagt að hver keðja sé aldrei sterkari en veikasti hlekkur hennar og að með samtakamætti er mönnum allir vegir færir. Nú er lag, tökum höndum saman, hugsum saman og finnum saman sameiginlega framtíð byggða á þeim mikla arfi sem fyrri kjötiðnaðarmenn hafa lagt, byggða á núverandi samstöðu og sameiginlegri framtíðarsýn okkar félagi og iðn til framdráttar.
Hreiðar Örn